Samantekt um þingmál

Ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019

2. mál á 149. löggjafarþingi.
Fjármála- og efnahagsráðherra.

Markmið

Að hækka persónuafslátt tímabundið, að hækka tekjumörk í efra þrepi tekjuskatts, að hækka barnabætur og vaxtabætur og að lækka tryggingagjald.

Helstu breytingar og nýjungar

Lagðar eru til ýmsar breytingar á skattalögum sem eru óaðskiljanlegur hluti af forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2019. Lögð er til 1% tímabundin viðbótarhækkun á persónuafslætti umfram lögbundna hækkun í samræmi við vísitölu neysluverðs. Einnig er gert ráð fyrir að tekjumörk í efra þrepi tekjuskatts verði tengd vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu og að viðmiðunarfjárhæðir barnabóta og vaxtabóta hækki. Enn fremur er lagt til að almenna tryggingagjaldið lækki í tveimur áföngum, um 0,25% í hvorum áfanga, eða samtals um 0,5%. Miðað er við að fyrri áfanginn komi til framkvæmda í ársbyrjun 2019 og sá síðari í ársbyrjun 2020.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Lög um tryggingagjald, nr. 113/1990.
  • Skylt mál: Fjárlög 2019, 1. mál (fjármála- og efnahagsráðherra) á 149. þingi (11.09.2018)

Kostnaður og tekjur

Heildaráhrif tillagnanna á afkomu ríkissjóðs eru neikvæð um 7,9 milljarða kr. árið 2019 og 11,9 milljarða kr. á árinu 2020 að öðru óbreyttu.

Gjöld
Áætluð áhrif þess að persónuafsláttur hækki um 1% umfram lögboðna hækkun á vísitölu neysluverðs við staðgreiðslu á árinu 2019 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2020 eru metin kringum 2,2 milljarðar kr. Hækkanir á viðmiðunarfjárhæðum og tekjuviðmiðunarmörkum barnabóta leiða til þess að heildarútgjöld vegna barnabóta verða 1,8 milljörðum kr. hærri árið 2019 en 2018. Breyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiða til heildarútgjaldaaukningar upp á 400 milljónir kr. milli áranna 2018 og 2019.

Tekjur
Talið er að árlegar breytingar á efri fjárhæðarmörkum tekjuskattsstofns í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu leiði til 500 milljóna kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð. Gert er ráð fyrir því að með lækkun almenns tryggingagjalds um 0,25% frá 1. janúar 2019 lækki tekjur ríkissjóðs um 4 milljarða kr. Þegar almennt tryggingagjald lækkar svo um önnur 0,25% frá 1. janúar 2020 þá munu tekjur ríkissjóðs lækka um 4 milljarða kr. til viðbótar eða um alls 8 milljarða kr. á tveimur árum.

Afgreiðsla

Samþykkt með lítils háttar breytingum en þeirri helstri að hækkun tekjumarka í efra þrepi tekjuskatts er gerð tímabundin til 31. desember 2019 þar sem í fjármála- og efnahagsráðuneytinu er til athugunar að búa til nýtt viðmið fyrir breytingar á persónuafslætti og fjárhæðarmörkum þrepa samhliða endurskoðun tekjuskattskerfisins. 


Síðast breytt 26.06.2019. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.